Níu lifehacks til að láta bílinn lúkka

Notaðu spritt á rúðuþurrkurnar

Það er fátt meira pirrandi en vinnukonur sem káma út rúðuna í staðinn fyrir að hreinsa. En ef þú ferð með sprittaða tusku á þessar elskur eins og einu sinni í viku ertu í mjög góðum málum. Þökk sé Covid er hefur svo aðgengi að spritti verið mjög gott undanfarin misseri.


Slímaðu erfiðu staðina

Hver kannst ekki við rykið og viðbjóðinn sem safnast fyrir á skrítnum stöðum eins og gírskiptingunni og innan í mælaborðinu. Slímið sem krakkarnir ykkar elska að leika sér með er fullkomið til að pota á þessa konar erfiða staði og rífur upp óhreinindin með sér.

Notaðu sköfuna á dýrahárin

Loðnu ferfætlingarnir sem ferðast stundum með okkur eiga það til að fara nokkuð harkalega úr hárum. Sem er hvimleitt fyrir farþega með ofnæmi, auk þess að festast við fatnað. En örvæntið ekki, einfaldasta leiðin til að losna við dýrahárin er gamla góða skafan, spreyjaðu bara fyrst örlitlum vatnsúða yfir áklæðið, og renndu svo yfir með sköfunni.

Settu sokk í glasahaldarann

Glasahaldarinn er hannaður til að koma í veg fyrir að það hellist niður, en enginn er fullkominn. Af og til lendir þú í því að keyra yfir ójöfnur og einn eða tveir dropar af kaffi, orkudrykk eða appelsíni slettast upp úr. Með tímanum getur þess vegna glasahaldarinn orðið virkilega klístraður og ógeðslegur. Besta leiðin til að þrífa hann er klæða kaffibolla í gamlan (hreinan) sokk sem þú bleytir að utan með hreinsisprey. Þú setur hann svo í glasahaldarann og leyfir honum að sitja þar í nokkrar mínútur, og nuddar honum svo ofan í til að skrúbba síðustu óhreinindin í burtu.

Byrjaðu efst og færðu þig niður

Ef þú byrjar að ryksuga sætin verða þau aftur öll úti í kuski eftir að þú þrífur rúður og hurðir. Byrjaðu að þrífa efstu parta bílsins og færðu þig svo neðar og neðar.

Farðu með hárblásarann á stuðarann

Þér fannst kannski sniðugt að setja þennan „meistari á ferð” límmiða á stuðarann þegar þú varst 18 ára en hann er fyrir löngu orðinn hallærislegur og fáránlega erfitt að ná honum af. Þá kemur hárblásarinn til bjargar en heitur blástur í smá stund er nóg til að leysa upp límið þannig hægt er að fjarlægja æskubrekið.

Settu tannkrem á framljósin

Ef þú hefur átt bíl lengi fara ljósin að verða óskýr eftir því sem óhreinindin hrannast upp. Prófaðu næst þegar þú ert búinn að tannbursta þig að fara með heita tusku og tannkrem á framljósin, og þau verða aftur eins og ný.

Sturtaðu matarsóda til að losna við lykt

Eru skrítnir blettir sem lykta í áklæðinu? Sturtaðu matarsóda á vandamálið og leyfðu honum að malla þar í nokkra klukkutíma. Þegar þú ryksugar sódann af er lyktin á bak og burt.

Makaðu ólífuolíu á mælaborðið

Byrjaðu á því að hreinsa allt ryk og óhreinindi. Settu svo smotterí af ólífuolíu í hreina tusku og nuddaðu yfir allt mælaborðið, sem gefur því ferskan gljáa.

VILT ÞÚ FÁ ÁMINNGU?

Ef þú vilt láta minna þig á næstu skoðun þá er tilvalið að skrá sig á póstlista Aðalskoðunar.