HUGAÐU AÐ FRAMRÚÐUNNI

Rúðuþurrkuarmur og rúðuþurrkur

Skipta ætti um rúðuþurrkuarm á 75.000 km fresti og um rúðuþurrkur (blöðin) á sex mánaða fresti. Mikilvægt er að huga að rúðuþurrkunum allan ársins hring og gott er að hafa í huga að bæði frost og sumarhiti geta ollið sliti á þurrkublöðunum, sem og alls kyns óhreinindi af (malar)vegum. Hrein framrúða er einn af lykilþáttunum þegar kemur að umferðaröryggi. Kámug og skítug rúða á sólríkum degi getur dregið úr útsýni ökumanns og því er mikilvægt að halda henni hreinni og gæta þess að alltaf sé nóg af rúðuvökva á bílnum. Eins getur verið gott að nota önnur hreinsiefni á rúðurnar, bæði til að viðhalda hreinni rúðu og til að lengja líftíma þurrkublaðanna.

Skoðaðu rúðuþurrkurnar reglulega, bæði þurrkublöð og rúðuþurrkuarma

Lyftu hvorum rúðuþurrkuarmi upp af rúðunni og renndu fingri eftir brúnunum á þurrkublaðinu. Ef þurrkublaðið er slitið eða rifið, eða það koma rákir á rúðuna eftir rúðuþurrkuna, þarf að skipta um þurrkublað. Mundu að skipta um báðar rúðuþurrkur í einu. Ef önnur rúðuþurrkan er slitin á hin líklega stutt eftir líka.

Mundu eftir að huga að afturrúðuþurrkunni líka (ef hún er til staðar) þar sem að veðurfar hefur líka áhrif á hana, þrátt fyrir að ekki sé eins mikið álag á henni og rúðuþurrkunum að framan.


Hafðu öryggið í huga

Rúðuþurrkur gegna stóru hlutverki þegar kemur að umferðaröryggi. Því ætti að athuga rúðuþurrkurnar á viku eða tveggja vikna fresti og ganga úr skugga um að þær virki. Þetta vill stundum gleymast og þá lendir fólk í vandræðum þegar á reynir, eins og til dæmis í snjó eða miklu regni. Mikilvægt er að hafa í huga að mikill hiti getur eyðilagt gúmmíið á þurrkublöðunum og því er ekki síður mikilvægt að athuga þau með reglulegu millibili í heitu veðri líka. Athugaðu einnig stöðuna á rúðuvökvanum reglulega til að forðast það að lenda í erfiðum aðstæðum með tóman tank.


Þekkt “húsráð” til að þrífa framrúðuna

Matarsódi

Í stað þess að eyða peningi í sérhæfðar hreinsilausnir getur þú notað vatn og matarsóda til að búa til þínar eigin, heima hjá þér. Taktu könnu eða annað ílát með loki sem þú getur skrúfað af og á. Ef við miðum við ílátið sem þú notar þá setur þú 1⁄4 af matarsóda, 1⁄4 af uppþvottalegi og restina fyllir þú upp í með vatni. Því næst blandarðu þessu vel saman og þegar það kemur svo að því að þrífa rúðurnar á bílnum, þá blandarðu matarsódalausninni við 2 gallon (7,6 lítra) af vatni. Blandar því saman og þá er hreinsiefnið klárt.


Gluggahreinsir

Þú getur notað gluggahreinsiefni á rúðurnar í bílnum til að losa þig við strokur eða kám, án þess að þurfa að taka út vatnsslönguna eða að fara með hann á bílaþvottastöð. Þú getur jafnvel notað efnið til að hreinsa framljósin á bílnum þínum.


Coca Cola

Þegar það hefur rignt mikið, sérstaklega eftir langan þurrkatíma, þá getur gjarnan reynst erfitt að ná óhreinindum af framrúðunni. Eitt þessara húsráða er að nýta Coca Cola í að þrífa hana. Til að losa þig við kám og strokur skaltu byrja á því að leggja handklæði meðfram neðsta hluta rúðunnar til að verja málninguna, því næst er Coca Cola hellt varlega yfir framrúðuna. Eftir nokkurra mínútna bið notar þú vatn og hreinsiefni til að þrífa gosdrykkinn af rúðunni. Vertu þó viss um að ná því öllu af, því að ef það er látið standa, verður það klístrað, laðar að skordýr, ryk og önnur óhreinindi sem þú vilt ekki hafa á hreinu rúðunni þinni.


Barnaþurrkur

Síðasta húsráðið sem við minnumst á til að hreinsa rúðuna á bílnum þínum er að nota barnaþurrkur. Það kemur á óvart hversu mikið er hægt að hreinsa með aðeins einni þurrku, en þær er auðvelt að geyma í bílnum og grípa í þegar þú þarft að hreinsa framrúðuna.

*Þessi húsráð eru meira til gamans gerð og ábyrgist Aðalskoðun hvorki árangur né afleiðingar sem þessi húsráð hafa í för með sér, svo við mælum með því að farið sé varlega af stað í að prófa þau og að almennri skynsemi sé beitt við verkið.

VILT ÞÚ FÁ ÁMINNGU?

Ef þú vilt láta minna þig á næstu skoðun þá er tilvalið að skrá sig á póstlista Aðalskoðunar.