Ferðalagið hefst í bílnum – 7 góð ráð við undirbúning

Ferðalagið hefst í bílnum – 7 góð ráð við undirbúning

Við hjá Aðalskoðun viljum að viðskiptavinir okkar séu ávallt reiðubúnir til ferðalaga á bílnum sínum. Vonandi hefur þú ákveðið að fara í ferðalag innanlands í sumar og þá er nauðsynlegt að undirbúa ferðina vel og hlúa að bifreiðinni. Við höfum tekið saman nokkur atriði sem ættu að tryggja að þú og bíllinn séuð klár á veginn!

1. Er kominn tími á smurningu?

Það er allt of algengt að fólk gleymir að athuga ástand bílsins áður en haldið er af stað í langkeyrslu. Smurning er eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að athuga reglulega til að tryggja endingu bílvélarinnar og koma í veg fyrir að vélin bræðir úr sér. Kíktu í smurbókina og kannaðu hvort það sé kominn tími fyrir olíuskipti. Æskilegt er að athuga hvort bæta þurfi olíu á vélina, en undir vélarhlífinni er mælistika sem hægt er að draga upp úr vélinni.


2. Mældu þrýstinginn í dekkjunum

Það að vera fastur út í vegkanti með sprungið dekk er eins og byrjun á týpískri hryllingsmynd. Nauðsynlegt er að fylgjast reglulega með loftþrýstingi í bíldekkjum svo vertu viss um að athuga það áður en þú heldur af stað í langa bílferð. Það getur bæði verið hættulegt að aka bíl þar sem of lítill eða of mikill þrýstingur er í dekkjum og auknar líkur eru á að dekkin eyðileggist ef dekkin eru of lin. Bíllinn þinn eyðir einnig meira bensíni á linum dekkjum svo þú getur sparað u.þ.b. 10% eldsneyti með því að hafa dekkin í lagi! Kíktu í hurðarfalsið til þess að sjá ráðlagðan þrýsting í þínum dekkjum.

3. Ertu eineygður?

Það er stórhættulegt að vera ljóslaus á þjóðvegunum þar sem eru engir ljósastaurar. Það þýðir ekki að vera kjáni og halda að þú sleppir á ljóslausum bíl á íslenskri sumarnóttu. Vertu með öll ljós í toppstandi! Framljós, stöðuljós ,afturljós, bremsuljós og stefnuljós. Mundu líka að nota stefnuljósin, það er ekki nóg að þau virki.

4. Vantar að fylla á rúðuvökvann?

Það er alveg agalegt að ímynda sér að vera rúðupisslaus á miðjum þjóðvegi þegar sólin skín inn um skítugu framrúðuna. Vertu viss um að fylla á rúðuvökvann og að þurrkublöðin séu í góðu ástandi, þá ertu í toppmálum á ferðinni!

5. Geggjað frí á hreinum bíl

Er ekki skemmtilegra að rúlla yfir þjóðvegina á hreinum bíl? Því erum við sammála!
Bjóddu bílnum í létt bíladekur að innan og utan. Hreinsun að innan ætti að vera í forgangi þar sem það er fátt verra en þegar bíllinn er fullur af drasli og jafnvel orðinn illa lyktandi. Hreinsaðu til óþarfa drasl úr bílnum til að búa til meira pláss fyrir allt ferðadótið. Svo er auðvitað ekki verra að hreinsa hann vel að utan þannig hann gljáir í stíl við sólina!

6. Eru raftækin fyrir börnin fullhlaðin?

Langar vegalengdir í bíl geta reynt á taugarnar og á þetta sérstaklega við um börnin aftur í. Þó það sé vissulega gott að hvíla raftækin einstaka sinnum geta þau verið algjör bjargvættur í langri bílferð. Litlu orkuboltarnir eiga það til fá leið á því að sitja of lengi og það róar þau að geta horft á mynd eða spila leik á einhverjum tímapunkti á ferðinni. Sjáðu til þess að hlaða öll raftæki kvöldið áður en lagt er af stað, svo mælum við auðvitað með ferðahleðslutæki ef slíkt er til staðar.

7. Settu saman lagalista sem slær í gegn

Take me home, Country roads…. Hver man ekki eftir þessu sígilda lagi? Vertu viss um að hafa tónlist við hæfi þegar þú flýtur yfir malbikið! Þegar útvarpið byrjar að suða á heiðinni, vertu þá tilbúin/n með þína útgáfu af “roadtrip” lagalista sem hittir beint í mark hjá öllum farþegum.

Það skemmir ekki ef valin eru lög sem allir kunna og það myndast söngvastemming í bílnum – það lofar skemmtilegri og eftirminnilegri bílferð!

Jæja! Allt klárt og allir spenntir?

Við óskum ykkur góðrar ferðar, keyrið varlega og njótið vel.

VILT ÞÚ FÁ ÁMINNGU?

Ef þú vilt láta minna þig á næstu skoðun þá er tilvalið að skrá sig á póstlista Aðalskoðunar.