6 atriði sem munu hjálpa þér við undirbúning fyrir veturinn

Er bíllinn þinn klár í veturinn? 6 atriði sem munu hjálpa þér við undirbúning fyrir veturinn

Veturinn er genginn í garð og margir landsmenn eru jafnvel farnir að sjá snjókorn falla. Það er því ekki seinna vænna en að ökumenn fari að undirbúa bílinn sinn og höfum við tekið saman stuttan gátlista með nokkrum atriðum sem við mælum með að fara yfir áður en kuldinn og snjórinn tekur yfir.


Hugaðu að dekkjunum

Ástand dekkja skiptir öllu máli fyrir veturinn og gegna að sjálfsögðu stóru hlutverki þegar það kemur að umferðaröryggi. Við mælum með því að bíleigendur fylgist vel með að réttur loftþrýstingur sé í dekkjunum til að tryggja góða aksturseiginleika og auka endingu bílsins. Þrífðu dekkin svo reglulega með tjöruhreinsi til að viðhalda góðu veggripi í snjónum og á ísnum.

Kannaðu ástandið á rúðuþurrkum og rúðuvökva

Gott er að hafa í huga að frost getur slitið út þurrkublöðunum. Það er því nauðsynlegt að yfirfara rúðuþurrkur á tveggja vikna fresti og kanna hvort einhver slit séu á þeim svo þú lendir ekki í vandræðum þegar á reynir, til dæmis í snjó eða miklu regni. Það er líka gríðarlega mikilvægt að hafa rúðurnar ávalt hreinar, sérstaklega þar sem bæði slæmt veður og lægra sólarlag fylgir vetrinum. Sjáðu einnig til þess að rúðuvökvinn sé með aukið frostþol og fylltu reglulega á hann svo bílrúðurnar séu hreinar og fínar.

Mældu frostlöginn

Það skiptir miklu máli að kanna stöðuna á frostleginum í bílnum svo vélin sé vel varin, sérstaklega áður en það kólnar í veðri. Mældu frostþolið í frostleginum t.d. á næstu bensínstöð eða smurstöð og athugað hvort það þurfi að bæta í tankinn eða endurnýja vökvann.

Hver er staðan á rafgeyminum?

Það er agaleg tilhugsun að koma að rafmagnslausum bíl á köldum vetrarmorgni og byrja daginn á því að fá start á bílinn. Það er mikilvægt að rafgeymirinn sé í góðu lagi þar sem álag á rafgeymum eykst þegar kuldinn og frostið sækir á bílinn. Við mælum því með að láta sérfræðing yfirfara ástand rafgeymisins og skipta um rafgeymi ef þess þarf.

Er allur ljósabúnaður í lagi?

Vetrinum fylgir meira myrkur sem veldur aukinni slysahættu. Því er bráðnauðsynlegt að vera með öll ljós í toppstandi fyrir veturinn svo það sjáist örugglega vel í bílinn á veginum. Það er lítið mál og tekur stuttan tíma að ganga í kringum bílinn og yfirfara hvort allur ljósabúnaður sé í lagi, þ.e. framljós, stöðuljós ,afturljós, bremsuljós og stefnuljós.

Hafðu viðeigandi búnað meðferðis

Góð rúðuskafa og kústur þarf að sjálfsögðu að vera til staðar í bílnum fyrir veturinn. Blanda í úðabrúsa sem eyðir ísingu af bílrúðum getur einnig létt þér lífið, en það er t.d. hægt að blanda ⅔ spritt og ⅓ vatn og úða yfir bílrúðuna til að losa við ísinguna. Mikill raki á það til að myndast í bílnum en þá er oft mælt með gamla húsráðinu að setja kattasand í poka og geyma hann undir sætinu til að losna við móðu á rúðunum. Svo er ekki síður mikilvægt að hafa meðferðis viðeigandi búnað ef bíllinn skyldi festast í snjónum, þá geta hlutir eins og skófla, dráttartóg og vasaljós komið sér vel.

Að lokum viljum við benda á að ef það fer að líða að næstu skoðun á bílnum er um að gera að nýta tæki­færið og láta skoða bílinn fyr­ir vet­ur­inn. Við mælum með að koma með bílinn tímanlega í skoðun til að tryggja að öll öryggisatriði séu í lagi fyrir veturinn svo bílinn sé klár í hvaða veður sem er!

VILT ÞÚ FÁ ÁMINNGU?

Ef þú vilt láta minna þig á næstu skoðun þá er tilvalið að skrá sig á póstlista Aðalskoðunar.